Á málstofunni verða 3 erindi: Hildur Guðmundsdóttir, starfandi framkvæmdastýra athvarfsins mun flytja frumsamda smásögu um konu frá landi utan EES sem leitar í Kvennaathvarfið vegna ofbeldis maka síns. Sagan byggir á raunverulegum aðstæðum og reynslu margra kvenna í sambærilegri stöðu.
Jenný Kristín Valberg, ráðgjafi í Kvennaathvarfinu mun fjalla stuttlega um niðurstöður MA rannsóknar sinnar sem gerð var árið 2019. „Ég skil ekki alveg af hverju enginn tók eftir því að þarna væri ofbeldi í gangi“. Hver er upplifun íslenskra kvenna og kvenna af erlendum uppruna sem fara úr ofbeldissamböndum? Höfundur mun fjalla aðeins um eðli og afleyðingar gasljóstrunar í andlegu ofbeldissambandi og ræða nokkrar af niðurstöðum rannsóknarinnar sem m.a. sýndu fram á að engin brotaþola var laus við ofbeldismanninn þrátt fyrir að ná fram skilnaði við hann þar sem andlegt, fjárhagslegt og stundum kynferðislegt ofbeldi hélt áfram.
Drífa Jónasdóttir Verkefnastýra athvarfsins mun fjalla um könnun sem unnin var árið 2018 á vegum Kvennaathvarfsins, en verkefnið var styrkt af Velferðarráðuneytinu. Titill verkefnisins er „Líðan og upplifun þolenda heimilisofbeldis og persónueikaeinkenni ofbeldismanna.” Alls tóku 326 konur þátt, en borin voru saman svör kvenna með reynslu af heimilisofbeldi við svör kvenna sem ekki höfðu slíka reynslu. Drífa mun segja stuttlega frá tegund og tíðni ofbeldis sem þátttakendur greindu frá. Fara yfir líðan þolenda í byrjun og við enda ofbeldissambands. Skoðað verður hlutfall þeirra sem hafa kært ofbeldið, hvert var umfang lögregluafskipta og hverjar voru afsakanir ofbeldismanna. Að lokum verður fjallað um upplifun þátttakenda á persónuleika ofbeldismannanna.